Blöðrusig er algengasta sig á líffærum grindarhols en legsig og ristilsig eru einnig nokkuð algengt.
Helstu einkenni blöðrusigs er tilfinning um bungun inn í leggöng framanverð. Konur lýsa jafnframt þrota eða þunga, þreytu í botni og jafnvel útbungun við leggangarop. Margar konur eiga erfitt með að tæma blöðruna vel ef um blöðrusig er að ræða. Slíkt getur aukið líkur á þvagfærasýkingum. Hægðatregða getur aukið á einkenni frá blöðrusigi. Blöðrusig getur valdið konum óþægindum við samfarir.
Einkenni eru oft meiri dagana fyrir blæðingar og þegar aukinn vökvasöfnun verður í líkamanum.
Erfitt er að meta fjölda þeirra kvenna sem þjást af sigi þar sem margar konur leita sér aldrei hjálpar vegna þessa. Talið er að allt að helmingur kvenna hafi ekki nauðsynlegan stuðning í grindarbotni (vöðva-og bandvefs) einhvern tíma lífsleiðarinnar, annað hvort í stuttan tíma eða langan.
Blöðrusig verður algengara með hækkandi aldri, auknum fjölda fæðinga og er algengara hjá konum með mjög eftirgefanlegan bandvef (hypermobility syndrome). Legnám og aðrar skurðaðgerðir á líffærum grindarhols virðist auka líkurnar á blöðrusigi. Keisaraskurður verndar konur ekki alfarið gegn hættunni á að fá blöðrusig eða aðrar tegundir af sigi.
Fyrir konur með fyrstu stig blöðrusigs eru grindarbotnsæfingar góður kostur. En þegar kemur að blöðrusigi er eins og með þvagleka, afskaplega mikilvægt er að gera æfingarnar rétt. Og þegar við erum að tala um blöðrusig getur rangt átak haft slæm áhrif. Of mikið framlag/samdráttur frá kviðvöðvum getur aukið á blöðrusigseinkenni ef grindarbotnsvöðvar virkjast ekki nægilega mikið.
Sjáið fyrir ykkur að þegar kviðvöðvar eru dregnir saman en ekki grindarbotninn eykst þrýsingur inni í kviðarholi og hann leitar beint að veikasta punktinum sem hjá flestum konum er grindarbotninn. Því þurfa margar konur að læra að gefa aðeins eftir í kvið á sama tíma og þær læra að spenna grindarbotninn almennilega.
Margar konur ná því ekki að spenna rétt og flestar hafa tilhneiginu til að beita kviðvöðvum of mikið.
Hafa þarf í huga að það geta ekki allir farið í hvaða leikfimi/líkamsrækt sem er. Sumar tegundir líkamsræktar geta aukið á sig-einkenni og þurfa konur oft að sleppa því sem getur aukið á einkennin og velja sér aðra tegund hreyfingar. Látið skynsemina ráða.
Leitaðu til sjúkaþjálfarans til að fá leiðbeiningar og kennslu í að gera rétt.
Aðrar leiðbeiningar:
- Léttu þig ef þú ert of þung.
- Vertu ekki í þröngum buxum eða pilsi, það getur aukið einkennin.
- Gefðu þér nægan tíma þegar þú pissar og forðastu að rembast/flýta þér.
- Hugsaðu vel um stellinguna sem þú notar þegar þú sest á klósettið, vertu upprétt og e.t.v. þarftu að halla þér aðeins fram á við. Það skiptir máli að finna út úr því.
- Forðastu hægðartregðu eins og heitan eldinn, ef þú getur.
- Hvíldu þig í stellingum sem draga úr þunga niður á botninn ef þú hefur mikil einkenni, liggðu til dæmis á hlið eða á grúfu.
- Gerðu æfingar í þeim stellingum sem létta á botninum ef þér gengur illa að spenna grindarbotninn.
- Hugleiddu hvort þú ert að stunda líkamsrækt sem er góð fyrir þig að þessu leyti. Þú gætir þurft að aðlaga þig með þennan veikleika í huga á meðan þú ert að ná tökum á grindarbotnsvöðvunum og draga úr einkennunum.