TÁP Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfun er löggild sjálfstæð heilbrigðisstétt og er þeim einum heimilt að stunda sjúkraþjálfun sem hafa fengið til þess leyfi Velferðarráðuneytis, áður Heilbrigðisráðuneytisins. Sjúkraþjálfun er kennd við námsbraut í sjúkraþjálfun við læknadeild Háskóla Íslands og er fjögurra ára nám. Náminu lýkur með BSc gráðu í sjúkraþjálfun. Kennsla hófst í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands 1976.

 

Sjúkraþjálfun byggir á vísindalegri þekkingu. Aðalmarkmið starfsins er að vinna að því að viðhalda og bæta heilsu og starfshæfni fólks. Sjúkraþjálfarar beita ýmsum aðferðum til að fyrirbyggja, greina, meta, leiðrétta eða minnka bráða eða langvinna truflun á hreyfingu og starfshæfni einstaklinga.

 

Sjúkraþjálfarar búa yfir sérþekkingu á eðlilegum hreyfingum og greiningu á frávikum frá þeim. Starf sjúkraþjálfara er m.a. fólgið í nákvæmri greiningu og meðferð ýmissa sjúkdómseinkenna sem tengjast truflun á hreyfigetu og stafa af sjúkdómum, slysum eða röngu álagi. Einnig felst starfið í endurhæfingu til að bæta starfshæfni og starfræna getu einstaklingsins auk fræðslu, ráðgjafar og leiðbeininga.

 

Sjúkraþjálfarar vinna að hæfingu og endurhæfingu fólks á öllum aldri, frá ungabörnum til aldraðra einstaklinga. Aðferðirnar sem sjúkraþjálfarar beita taka yfirleitt mið af hreyfikerfinu og stjórnun þess. Þær felast m.a. í að :

 • Auka styrk vöðva og auka hreyfiferla liða
 • Auka þol og þrek
 • Auka færni
 • Auka jafnvægi
 • Auka göngugetu
 • Auka samhæfingu
 • Draga úr sársauka

Dæmi um kvilla sem sjúkraþjálfarar meðhöndla:

 • Einkenni frá hálsi og herðum, s.s. óstöðugleiki, vöðvaverkir og stirðleiki
 • Höfuðverkir
 • Einkenni frá mjóbaki t.d. óstöðugleiki eða brjósklos
 • Einkenni frá brjóstbaki
 • Stoðkerfisvandamál tengd sjúkdómum og fötlun
 • Þjálfun eftir veikindi og aðgerðir
 • Meðhöndlun og þjálfun á meðgöngu og eftir fæðingu
 • Einkenni frá grindarbotni, t.d. verkir, þvagleki og sig á líffærum.
 • Þjálfun m.t.t. hreyfiþroska barna og unglinga
 • Meðhöndlun og forvarnir íþróttameiðsla
 • Endurhæfing og þjálfun í kjölfar slysa
 • Meðhöndlun og forvarnir atvinnutengdra stoðkerfisvandamála
 • Fræðsla um heilbrigðan lífsstíl
 • Meðhöndlun útlimaliða

 Hvenær þarftu á sjúkraþjálfun að halda?

 • Vegna verkja í stoðkerfinu þ.e. vöðvum og liðum og vegna höfuðverkja.
 • Vegna stirðleika í stoðkerfinu þ.e. hreyfingum hryggjar -eða útlimaliða.
 • Vegna ýmissa einkenna tengd veikleika/eða skorti á samhæfingu í vöðvakerfi.
 • Vegna óstöðugleika í hálsi, hrygg eða útlimaliðum.
 • Vegna gigtareinkenna.
 • Vegna hryggskekkju.
 • Vegna beinþynningar.
 • Vegna ofþyngdar og ef líkamsástand er ekki gott.
 • Vegna jafnvægistruflana.
 • Vegna hjartasjúkdóma.
 • Vegna áverka eða slysa.
 • Vegna taugasjúkdóma.
 • Vegna stoðkerfissjúkdóma.

 • Vegna einkenna frá grindarbotni.

Sjúkraþjálfarar nota ýmsar aðferðir

 • Liðkandi meðferð, almenn og sérhæfð eftir þörfum
 • Stöðugleikaþjálfun, almenn og sérhæfð eftir þörfum
 • Sérhæfð liðameðferð (Manual Therapy)
 • Færnisþjálfun og önnur æfingameðferð
 • Einnig fást sjúkraþjálfarar við endurhæfingu og ráðgjöf um líkamsbeitingu og heilbrigði í starfi og frístundum sem og almenna og sérhæfða þjálfun ýmissa hópa s.s hjartasjúklinga mæðraleikfimi og hreyfingu fyrir of þunga einstaklinga.
 • Vöðvateygjur, tog og liðlosun
 • Heitir bakstrar og kælimeðferð
 • Nuddmeðferð eða annað mjúkvefjameðferð
 • Rafmagnsmeðferð, svo sem hljóðbylgjur og laser til að bæta ástand vefja og minnka sársauka
 • Rebox, blandstraumur, stuttbylgjur og TNS og raförvun.
 • Slökunarmeðferð
 • Verkjameðferð s.s nálarstungur, rafmagnsmeðferð og kæling
 • Örvun á þroska barna m.t.t. eðlilegs hreyfiþroska barna
 • Bæði í einstaklings- og hópmeðferð

Sérhæfing á hinum ýmsu sviðum sjúkraþjálfunar hefur færst í aukana. Stór hópur sjúkraþjálfara sem stundar göngudeildarþjónustu hefur sérhæft sig í skoðun og meðhöndlun á hryggjar – og útlimaliðum og einnig hafa sjúkraþjálfar sérhæft sig í greinum eins og barna­sjúkra­þjálfun, hjarta­- og lungnasjúkra­þjálfun, sjúkraþjálfun aldraðra, geðsjúkraþjálfun, íþrótta­sjúkra­þjálfun og sjúkraþjálfun á meðgöngu og eftir barnsburð

Þannig hefur greining á stoðkerfisvandamálum orðið nákvæmari og hafa sjúkraþjálfarar einnig sérhæft sig í aðferðum eins og t.d. hnykkmeðferð og nálastungumeðferð. Allar meðferðir sjúkraþjálfunar byggjast á viðurkenndum vísindalegum aðferðum sem eru í stöðugri þróun. Dæmi um vandamál í stoðkerfi eru mjóbaks-, háls- og axlarvandamál sem geta stafað af slysum, sjúkdómum og/eða óæskilegu álagi á stoðkerfið.

Aðferðirnar eru mismunandi og ráðast af nákvæmri greiningu á orsökum vandamáls viðkomandi einstaklings, svo skoðun er mjög mikilvæg þegar skjólstæðingur kemur til sjúkraþjálfara.

Ráðgjöf, forvarnir og heilsuefling er mikilvægur þáttur í starfi sjúkraþjálfara vegna sérþekkingar þeirra á álagseinkennum og afleiðingum ýmissa sjúkdóma á stoðkerfi líkamans.

afboða tíma

Mikilvægt er að viðskiptavinir afbóki tíma með góðum fyrirvara sjái þeir sér ekki fært að mæta eða forfallist. Að öðrum kosti áskiljum við okkur rétt til að innheimta forfallagjald. Hægt er að afboða með eftirfarandi leiðum:

 

 

hafa samband

Hafir þú einhverjar fyrirspurnir getur þú fyllt út formið hér til hægri og við höfum samband við fyrsta tækifæri.