Heiti þessa ástands hefur verið til mikillar umræðu upp á síðkastið þar sem erfitt er að finna nafn sem nær utan um allt það sem konur þjást af. Þverfagleg samtök heilbrigðisstétta og sjúklingasamtaka hafa á síðustu árum skoðað heitin genito-pelvic pain eða penetration dyspareunia sem hugsanleg samheiti þessara einkenna.
Samfélag okkar ákvarðar hvað eðlilegt sé að tala um og hvað sé „tabú“. Yfir hádegismatnum með samstarfsfélögum okkar er það félagslega samþykkt að talað sé um bakverki, höfuðverki og inflúensuna en ekki aðra sjúkdóma. Þetta eru yfirleitt sjúkdómar sem fólk skammast sín fyrir á einhvern hátt, fólkið sem stendur okkur næst fær ekki einu sinni að vita hvað við erum að takast á við þar sem ekki má tala um slík vandamál. Eitt af þessum vandamálum sem er „tabú“ og mikilvægt að opna umræðuna um kallast vulvodynia og er talið að hátt í 17% kvenna þurfi að takast á við þetta vandamál.
Lækningsfræðileg skilgreining vulvodyniu er samsett ástand sem veldur brennandi, svíðandi eða skerandi sársauka við snertingu á vulvu þ.e. ytri sköpum í kringum skeiðina (leggöng). Það finnast tvær tegundir af vulvodyniu, annars vegar ertingar tengd, þar sem verkirnir verða við snertingu og hins vegar sú tegund þar sem verkirnir eru stöðugir. Þessi óþægindi valda oft keðjuverkun mikillar spennu og breyttrar hegðunar/líkamsbeitingar sem á endanum getur aukið á vandann.
Orsakir
Ekki er vitað með vissu hvað orsakar sjúkdóminn þó almennt sé talið að margir þættir stuðli að þróun hans. Þar má nefna:
– sveppasýkingar og meðhöndlun þeirra
– afleiðingar og viðbrögð eftir strepptókokkasýkingar
– meiðsli eða erting á taugar á svæðinu
– aukin bólgusvörun í frumum
– hormónastaða
– streita og kvíði
– aukinn rakstur eða vaxháreyðing af kynfærasvæði hafa einnig verið til skoðunar sem hugsanlegir orsakavaldar.
Greining
Greiningin getur verið erfið. Oft eru tekin sýni til að útiloka aðra sjúkdóma. Eftir það er gerð læknisskoðun þar sem kannað er hvort húðin í kringum skeiðina sé mjög ertanleg og verði þá rauð við snertingu. Því miður fara konur oft seint til læknis út af þessum einkennum og sumar fá greininguna eftir margar rannsóknir og eftir að hafa prófað ýmis meðferðarform sem ekki hafa borið næganlegan árangur.
Afleiðingar
Hjá sumum konum hverfa einkenni af sjálfu sér eftir einhvern tíma en margar konur þjást lengi. Afleiðingar þessa sjúkdóms hafa áhrif á lífsgæði kvenna og geta verið mjög hamlandi. Með sjúkdóminn virkan í langan tíma, verður oft til mikill vítahringur, fleiri líffærakerfi verða veik vegna aukinnar spennu, þar með talið vöðva-og himnukerfi bols og mjaðmagrindar. Kynlíf er sársaukafullt og að lokum gefast margar algerlega upp á kynlífi. Erfitt getur fyrir þessar konur að vera í þröngum buxum, nota túrtappa, hjóla o.s.frv.
Meðferð
Mikilvægt er að opna umræðuna og gera konur meðvitaðar um að meðferð er til en hún krefst í flestum tilfellum þverfaglegrar samvinnu og eru sjúkraþjálfarar í mikilvægu hlutverki í meðhöndlun.
Hægt er að meðhöndla vulvodyniu með bótoxi, deyfikremum og lyfjum í smyrslformi s.s. TNG smyrsli eða með aðgerð. Hluti kvenna batna eftir fæðingu um leggöng og 6-7% batna þegar þær hætta á getnaðarvarnarpillunni.
Árangur meðferðar sjúkraþjálfara er oft mjög góður en ekki er hægt að lofa konum fyrirfram algjörum bata.
Þær aðferðir sem sjúkraþjálfarar beita eru margar:
Skoðun og mat á ástandinu er nauðsynlegt upphaf að góðum árangri. Skoðun sjúkraþjálfara inniheldur alltaf innri þreifingu og athugun á ytri kynfærum. Einnig þarf að huga að öndun, líkamsstöðu, vinnuálagi, vöðvaspennu og vöðvastyrk-og styttingum, sérstaklega í grindarbotni, mjöðmum og mjóbaki.
Meðhöndlunin er í samræmi við það sem kemur fram við skoðun. Oft þarf að huga að og leiðrétta líkamsbeitingu, öndun og vöðvastyttingar. Vinna þarf með slökun, bæði almenna og sértæka. Einnig þarf að jafnaði að meðhöndla konuna innri meðhöndlun í gegn um leggöng til að ná til grindarbotnsvöðva og vefja eins og liðbanda, annarra vöðva og vöðvahimna sem eru staðsett djúpt í mjaðmagrind.
Mikið er í húfi að vel takist til og er samvinna og traust milli sjúkraþjálfarans og skjólstæðingsins mikilvæg til að árangur náist.
Höfundar: Guðrún Magnúsdóttir og Þorgerður Sigurðardóttir sjúkraþjálfarar